Norvik var stofnað árið 2000 sem eignarhaldsfélag til að halda utan um fjölbreytt og stækkandi eignasafn. Ráðist var í ný verkefni í smásölu, timburiðnaði, flutningslausnum og rekstri fasteigna, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra aðila.
Árið 2018 voru allar eignir Norvikur í timburiðnaði í Lettlandi, Eistlandi og Bretlandi seldar til Bergs Timber AB, almenningshlutafélags sem skráð er á markað í Svíþjóð, en Norvik er þar kjölfestufjárfestir.
Við beinum sjónum okkar áfram að fjárfestingatækifærum sem falla vel að núverandi verkefnum félagsins, en einnig horfum við til spennandi tækifæra sem verða til í síbreytilegu rekstrarumhverfi innanlands sem utan.
Við eigum okkur langa og farsæla sögu sem fjölskyldufyrirtæki þar sem áherslan hefur verið á uppbyggingu og rekstur smásölu og heildsölu á timbri og byggingarvörum, uppbyggingu og þróun í timburiðnaði, rekstur fasteigna, og vöruhúsa- og flutningslausnir.
Saga Norvikur hófst árið 1962 með stofnun BYKO og opnun lítillar timbur- og byggingavöruverslunar á Kársnesi í Kópavogi. Af elju og framsýni var BYKO þróað áfram og er í dag leiðandi aðili á íslenskum byggingavörumarkaði sem þjónar af natni bæði fagaðilum sem og einstaklingum í framkvæmdum.
Samhliða uppbyggingu í rekstri BYKO var fasteignafélagið Smáragarður sett á fót og þróað sem rekstraraðili fasteigna undir verslanir og vöruhús, og einnig var fjárfest utan Íslands í félögum í timburiðnaði; í Lettlandi, Rússlandi, Eistlandi og Bretlandi.